Sjá einnig: „Kom manni ekki á óvart að fá kalda öxl frá sumum“
Fréttastofa náði tali af Gunnari Braga í Alþingishúsinu síðdegis en hann og samflokksmaður hans, Bergþór Ólason, sneru báðir aftur á þing í dag eftir launalaust leyfi sem þeir tóku sér í desember vegna Klaustursmálsins svokallaða. Bæði Gunnar Bragi og Bergþór höfðu uppi ósæmileg ummæli um þingmenn, þar á meðal þær Lilju Alfreðsdóttur og Ingu Sæland.
Ljóst er að andrúmsloftið á Alþingi í dag var þungt. Inntur eftir því hvort það hafi ekki verið óþægilegt að sitja á Alþingi við slíkar aðstæður segir Gunnar Bragi að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þungt sé yfir mönnum á þingi.
„Andrúmsloftið hefur oft verið erfitt á þingi síðan ég byrjaði fyrir um tíu árum síðan. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem er lágskýjað á Alþingi. Við hins vegar þurfum að vinna hér að ákveðnum málum, það er það sem við eigum að gera, við eigum að hafa okkur yfir það hvað okkur finnst um hvort annað. Ég get örugglega sagt það að það eru ekki allir þingmenn sem ég er sérstaklega hrifinn af hér, andstæðingar mínir, en ég ætla samt að vinna með þeim því það er okkar skylda.“
Á milli þeirra Lilju
Lilja gekk tvisvar upp að Gunnari Braga á þingfundi í morgun og hafði sitthvað að segja við hann en sjálf segist Lilja hafa lýst þar yfir óánægju sinni með framkomu hans í sinn garð á Klaustri. Sjálfur vill Gunnar Bragi ekki tjá sig um það sem þeim fór á milli á þingfundinum.„Það er nú bara á milli okkar Lilju.“

„Ja, hver eru fórnarlömbin? Þau eru náttúrulega þeir sem við særðum en þau eru líka þeir sem teknir voru upp með ólöglegum hætti á þessum bar þarna. Ég skil ágætlega að þeir sem þarna var talað um hafi verið pínu brugðið en á sama tíma má segja: áttum við að láta alla vita, áttum við að velja einn úr eða eitthvað slíkt?“ segir Gunnar Bragi.
„Ég sé kannski mest eftir því að hafa ekki látið Lilju Alfreðsdóttur vita því við erum ágætir vinir, vorum ágætir vinir, og verðum það vonandi áfram, og kunningjar þrátt fyrir þetta.“
Fór í marga sálfræðitíma
Þá segist Gunnar Bragi hafa litið inn á við í leyfinu og unnið í sínum málum, m.a. með hjálp sálfræðings.„Þegar maður sér sjálfan sig í þessum aðstæðum sem þarna voru, talandi með þessum hætti, enn og aftur bið ég fólk fyrirgefningar á því sem þarna var sagt. Eðlilega horfir maður inn á við og segir: hvað gekk þarna á? Því hvorki ég né fjölskylda eða vinir höfum í rauninni séð þennan mann sem þarna birtist. Þannig að mér fannst rétt að hitta sálfræðing og er búinn að fara í nokkuð marga tíma til að komast að því hvað þarna gekk á,“ segir Gunnar Bragi.
„Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að tala við þann ágæta mann, svona og sjá hvernig þessu fram vindur, en það er nauðsynlegt fyrir okkur sem verðum fyrir áfalli að leita okkur aðstoðar og vera ekki feimin við það.“
Ítarlega verður fjallað um endurkomu þeirra Bergþórs og Gunnars Braga Sveinssonar á þing og viðbrögð við því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.