Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, á þingfundi í dag. Annars vegar er um að ræða bréf átta þingmanna þar sem þeir óska eftir því að forsætisnefnd fjalli um mögulegt brot þingmannanna sex sem voru á Klaustri á siðareglum þingmanna.
Hins vegar er um að ræða annað mál sem tengist upptökunum á Klaustri en í samtali við Vísi vill Steingrímur ekki fara nánar út í það að hverju það mál snýr.
„Eins og fram kom og mátti ráða af mínum orðum þá eru tengsl á milli þess máls og Klaustursmálsins með þeim hætti að það varð niðurstaða mín og varaforseta að það væri þá eðlilegast að við segðum okkur þá líka frá því máli,“ segir Steingrímur.
Aðspurður hvenær þetta mál kom inn á borð nefndarinnar segir hann það hafa verið öðru hvoru megin við áramót.

Skiptir mestu að þingið sjálft hafi talað mjög skýrt í málinu
Þingmenn Miðflokksins og óháðu þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason létu stór orð falla á þingi í dag um málsmeðferð Steingríms varðandi það að kjósa nýja varaforseta til þess að fara með Klaustursmálið.Var forseti þingsins meðal annars sakaður um valdníðslu og lögbrot en hann segir engan minnsta vafa leika á því í hans huga að þinginu hafi verið heimilt að kjósa nýja varaforseta.
Var það gert á grundvelli afbrigða frá þingsköpum og segir Steingrímur fordæmi fyrir því að beita afbrigðum gagnvart kosningum sem snúa að störfum þingsins.
Þannig hafi til dæmis verið kosnir færri varaforsetar en þingsköp kveða á um á grundvelli ákvæðisins og þá séu til gömul fordæmi um að kjósa fleiri í nefndir þingsins, til dæmis til að hleypa litlum flokkum inn í fjárlaganefnd.
„En það sem skiptir mestu máli er að salurinn sjálfur, þingið sjálft, hefur bara talað mjög skýrt,“ segir Steingrímur og vísar í það að 45 þingmenn samþykktu að leyfa kjör varaforsetanna nýju á grundvelli afbrigða gegn níu atkvæðum þingmanna Miðflokksins og óháðu þingmannanna.

Hafa samþykkt að gera bréfaskiptin opinber en bíða svara frá þingmönnum
Greint var frá því á mbl.is fyrr í dag forsætisnefnd hafi óskað eftir því við þingmenn Miðflokksins að fá að gera bréfaskipti á milli nefndarinnar og þingmannanna vegna Klaustursmálsins opinber.Steingrímur segir að óskir hafi komið frá fjölmiðlum að fá aðgang að þessum bréfaskiptum og að nefndin sé fús til þess að afhenda þau.
Hins vegar hafi ekki komið skýr svör frá þingmönnunum við beiðni nefndarinnar og segir Steingrímur að þess vegna sé ekki hægt að veita aðgang að bréfunum. Svör verði að koma frá gagnaðilanum eða allavega upplýsingar um að hann hreyfi ekki við mótmælum.