Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, sá sér ekki fært að tjá sig við Vísi þegar leitað var viðbragða í morgun sökum annríkis.
Var stuðningsmanni Stjörnunnar vísað úr húsi fyrir að kýla stuðningsmann ÍR en atvikið átti sér stað við upphaf leiksins sem hófst klukkan 17:30.
Myndband af högginu má sjá á vef RÚV.

„Við höfum beint því til Stjörnunnar að taka á því innan sinna raða. Hann er þarna á ábyrgð Stjörnunnar að það er algjörlega á ábyrgð stjörnunnar að meina honum aðgang að leiknum. Ég get ekki sagt til um það hvort hann komi á leikinn eða ekki, en ég myndi telja best að hann sleppi því,“ segir Hannes.
Hann segir öryggisgæsluna á leiknum hafa brugðist mjög vel við í þessu tilviki og verða mun fleiri í öryggisgæslu þegar úrslitaleikir karla og kvenna fara fram í Laugardalshöllinni í dag.
„Öryggisgæslan hjá okkur brást mjög hratt við þegar þetta kom upp á. Við erum klárlega búin að læra af þessu. Við höfum bent á það að undanförnu að það þurfi að auka öryggisgæslu og við erum sjálf búin að gera það.“
Hann bendir á að þetta sé einangrað atvik og svona lagað hafi ekki sést áður í Höllinni.
„Ég er viss um að þetta muni ekki gerast í dag og þetta er ljótur blettur á leiknum. Ég er viss um að það verði öruggt fyrir alla að koma í Laugardal í dag og menn þurfa ekkert að óttast. Ég hef bent Stjörnumönnum á að það er á þeirra ábyrgð hvort hann komi eða ekki og ég tel það best fyrir alla að hann horfi á leikinn í sjónvarpinu í dag, viðkomandi einstaklingur.“