Þetta segir Dóra Björt á Facebook síðu sinni en tilefnið er ræða Vigdísar í borgarstjórn í kvöld þar sem hún lagði fram tillögu um að „fella niður álögð innviðagjöld“ en Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, finnst orðalag tillögunnar vera sniðið að því að skapa hugrenningartengsl á milli innviðagreiðslna og lögbrota.
Vigdís segir á fundi borgarstjórnar að hún telji að innviðagjöldin séu ólögleg en Dóra bendir á að lögfræði sé ekki huglægt mat.
„Eitt dæmi af óteljandi um það hve sveigjanlegt samband borgarfulltrúinn hefur við sannleikann. Allt er beygt og teygt eftir hentisemi, að Trumpískum sið,“ segir Dóra.
Vigdís svaraði Dóru um hæl í ummælakerfi Facebook og sagði Dóru hafa opinberað sjálfa sig með færslunni. „Vel gert Dóra, frú forseti borgarstjórnar – færir tuddalætin inn á facebook – þurfti að ræða ónæðið og geiflurnar og flissið í lok máls míns – nú opinberar þú þig alveg og kærar þakkir fyrir það,“ skrifar Vigdís.

„Ég vísa því alfarið á bug að það að semja um innviðagreiðslur í tengslum við tiltekna uppbyggingu í einkaréttarlegum samningum sé lögbrot. Hvað þá að framkvæmdin hjá Reykjavíkurborg sé lögbrot enda hefur ekkert í máli borgarfulltrúans stutt við það þó hún hafi vissulega reifað blaðagrein þar sem því er haldið fram að af því þetta sé ekki í lögum þá sé þetta ekki lögmætur skattur en það er verið að semja um þetta á einkaréttarlegum grunni nákvæmlega eins og var gert varðandi gatnagerðargjaldið og þess vegna var ég að rifja upp þessa sögu vegna þess að samningar um slíkt eru fullkomlega eðlilegir þegar verið er að brjóta nýtt land, þeir eru líka fullkomlega eðlilegir þegar verið er að endurskipuleggja svæði vegna þess að gatnagerðagjaldaumhverfið miðast við lóðaúthlutanir og ný svæði,“ segir Dagur.

„Það er verið að réttlæta hér lögbrot með því að vísa í eitthvað sem gerðist fyrir einhverjum mörgum tugum ára þegar allt annað lagaumhverfi var. Innviðagjöldin eru ólögmæt að mínu mati og margra annarra hér í þessu samfélagi.
Það verður ekki leiðrétt með einhverjum öðrum lagasetningum á þinginu. Ef þetta eiga að vera rökin hjá öllum sem búa í Reykjavík og öllum sem búa á Íslandi að ég megi gera ákveðna hluti út af því að það var einhver á síðustu öld sem gerði sambærilega hluti en þó samt með afbrigðum að þá sé í lagi að ég bara brjóti lög. Þetta er alveg í takt við allt sem hefur komið fram hjá borginni eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Það er litið á lögbrot af léttúð,“ segir Vigdís.