„Ef mér tekst ekki að sannfæra þig um að kjósa Pírata, þá langar mig a.m.k. að sannfæra þig um að kjósa eitthvað annað en Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Helgi í færslunni. Hann segir ástæðuna ekki vera að stefna flokksins sé slæm heldur sé hann orðinn svo „heimakær valdinu“ að meðferð hans á því einkennist af ábyrgðarleysi.
„Þessi flokkur er með fullkomið ofnæmi fyrir ábyrgð.“
Þá segir hann flokkinn þurfa að fá hvíld frá valdastöðu þar sem hann sé farinn að líta á það sem sjálfsagðan hlut að vera við stjórnvölinn. Það sé orðið viðvarandi vandamál hvað flokkurinn sé orðinn rótgróinn hluti af stjórnmálasögunni og stjórnsýslunni sjálfri.
„Hann verður að fá pásu, þó það væri ekki nema til að hann troði því inn í hausinn á sér að það sé ekki sjálfsagt að hann sé við völd.“