Að minnsta kosti tveir hópar hafa verið stofnaðir utan um viðskiptavini WOW air síðan í gær. Annar heitir Stranded in Iceland, eða Föst á Íslandi upp á íslensku, og er ætlaður þeim sem komast ekki heim í kjölfar gjaldþrotsins. Hinn ber nafnið Wow Air Customers en þar hafa viðskiptavinir sem telja sig hlunnfarna af viðskiptum við WOW air eftir fall flugfélagsins deilt reynslusögum. 66 meðlimir eru í fyrrnefnda hópnum og 137 í þeim síðarnefnda.
Greiddu með debetkorti og fá ekkert
Þannig hafa farþegar velt uppi spurningum um ferðatryggingar, endurgreiðslu á flugmiðum og svokölluð „björgunarfargjöld“ Icelandair og annarra flugfélaga. Einhverjir meðlimir hafa lýst yfir óánægju með ferlið, líkt og Rebecca Dordolo kemst að orði:„Er einhver annar bara… uppgefinn.. eftir aðeins einn dag? Þú veist, heilinn í mér heldur ekki í við öll skilaboðin og að setja sig í samband við fólk hægri vinstri.“
Aðrir standa frammi fyrir því að hafa greitt fyrir flugmiða sína með debetkorti en sjá ekki fram á að fá endurgreitt, þar sem slíkt gildir einingis fyrir þá sem greiða með kreditkorti.
Í Stranded in Iceland-hópnum hefur strandaglópum til að mynda verið boðin ókeypis gisting í nágrenni við Keflavíkurflugvöll. Þá deila meðlimir ýmsum afsláttarkjörum sem fyrirtæki hafa boðið farþegum WOW air sem komast ekki heim, svo sem afslátt í Bíó Paradís og tilboði á gistingu hjá hótelinu Hlemmi Square.
Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að vel hefði gengið að koma erlendum strandaglópum WOW air á Íslandi til síns heima, sérstaklega til Evrópu. Einhverjir hnökrar hafa verið á fólksflutningum til Bandaríkjanna en stjórnvöld hafa sagst tilbúin til að leigja flugvél til að koma Bandaríkjamönnum heim til sín.