Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir greinilegt af viðskiptum dagsins að fjármunir hafi leitað inn í verðtryggð skuldabréf. Það hafi þó ekki gerst á kostnað óverðtryggðra skuldabréfa því þau hafi haldið sér líka.

HB Grandi og Marel halda velli
Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum, segir fjárfesta hafa slegið fasteignafélög niður á mörkuðum í dag en úr því megi lesa að búist sé við að ferðamönnum fækki, fasteignaverð lækki jafnvel og að nýting gistirýma muni versna.Sjávarútvegsfyrirtækið HB Grandi og tæknifyrirtækið Marel hafi hins vegar haldið velli í dag og vel það.
„Afkoma þessara félaga er algjörlega óháð rekstri Íslands. Marel er bara erlent félag og ætti að hækka ef menn halda að krónan veikist af því þeir eru með erlent sjóðsstreymi. Áhrifin á Granda eru lítil sem engin. Þetta er bara útflutningsfyrirtæki, þar gildir það sama, ef menn halda að krónan veikist ætti Grandi að hækka.“

„Og menn vissu að WOW yrði í vandræðum og ferðamönnum myndi fækka,“ segir Sveinn.
Áhrifin minni en búist var við
Hann segir ásókn í verðtryggð skuldabréfa vera flótta í öryggi og menn vilji þannig tryggja sig gegn aukinni verðbólgu vegna veikari krónu.Sveinn segir að hreyfingar á markaði í dag hafi verið eftir bókinni. Hlutabréfamarkaðurinn hafi lækkað og bitnaði mest á félögum sem séu háð ferðaþjónustu. Áhrifin hafi þó verið minni en hann átti von á og þar gæti hafa spilað inn í að fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum var afstýrt.
Króna veiktist nokkuð mikið í morgun þegar fregnir bárust af falli WOW air. Ein evra kostaði 136 krónur klukkan níu í morgun en var komin upp í 139 krónur um klukkan tíu. Veikingin gekk nokkuð hratt til baka og var komin niður í 137 krónur um klukkan ellefu og hefur haldið sér þar í dag.
Sveinn segir nokkuð augljóst að Seðlabankinn hafi stigið inn á markað til að vinna gegn veikingu krónunnar.