Gokmen Tanis hefur játað að hafa myrt þrjá og sært fimm í skotárás í Utrecht í Hollandi á mánudaginn. Þá segist hann hafa verið einn að verki. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá saksóknurum í Utrecht. Öðrum manni, sem var handtekinn á þriðjudaginn, hefur verið sleppt úr haldi. Hann var grunaður um að hafa veitt Tanis stuðning við árásina en hefur nú verið hreinsaður af sök í kjölfar rannsóknar.
Sömuleiðis hefur tveimur öðrum mönnum á þrítugsaldri verið sleppt úr haldi en þeir voru handteknir nærri vettvangi árásarinnar eftir að sporhundur rakti slóð að húsi sem þeir voru í.
Tanis á langan sakaferil að baki og hefur framið fjölmarga smáglæpi. Hann er einnig grunaður um nauðgun og hafði nýverið verið sleppt úr fangelsi vegna þess máls.
