Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sögðu frá því að alls hefði stormurinn bitnað á rúmlega 2,6 milljónum íbúa á svæðinu. Helsta hættan stafar nú af flóðum en vindur olli einnig töluverðu tjóni. Mældist 47 metrar á sekúndu þegar stormurinn gekk á land. Samkvæmt Rauða krossinum gengur enn erfiðlega að komast að íbúum í neyð enda vegir stórskemmdir og heilu þorpin á floti. Talið er að 400.000 hið minnsta hafi misst heimili sín í hamförunum.
„Þetta er versta neyðarástand í sögu Mósambík,“ sagði Jamie LeSueur, sem stýrir björgunarverkefni Rauða krossins í hafnarborginni Beira, við Reuters. Borgin varð einna verst úti í storminum og flóðvatn víða margir metrar á dýpt. Þá sagði LeSueur enn fremur að líklega myndi tala látinna hækka.

Samkvæmt sama miðli eru uppi spurningar um hvort stjórnvöld í Mósambík hefðu átt að vera betur undirbúin fyrir hamfarir sem þessar. Árið 2000 fórust hundruð í miklum flóðum og þrátt fyrir þá reynslu finnist mörgum stjórnvöld ekki hafa lært nóg til að takast á við næstu hamfarir.
Filipe Nyusi forseti hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í Mósambík. En víðar er syrgt. Í Simbabve stendur opinber tala látinna í 98 en hundraða er enn saknað.
Africa News greindi frá því að Tansanía hefði styrkt Mósambík, Simbabve og Malaví vegna hamfaranna og sent 214 tonn af matvælum sem og 24 tonn af lyfjum og öðrum nauðsynlegum heilbrigðisvörum. Þá hafa bæði Suður-Afríka og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sett af stað safnanir í von um að fá almenning til að styðja við hjálparstarf í löndunum þremur. Evrópusambandið hefur aukinheldur styrkt ríkin þrjú um 3,5 milljónir evra.