Þúsunda manna fjöldamótmæli héldu áfram í Alsír í gær þrátt fyrir að Abdelaziz Bouteflika forseti hafi sagt af sér fyrr í vikunni. Þessi röð mótmæla hófst um miðjan febrúar eftir að hinn aldraði Bouteflika tilkynnti að hann ætlaði að gefa kost á sér í forsetakosningum í fimmta sinn. Samkvæmt alsírsku stjórnarskránni mun forseti þingsins taka við embættinu.
En afsögn Bouteflika er ekki fullnægjandi fyrir mótmælendur. Krafan er sú að allir valdamenn úr innsta hring forsetans víki. „Við erum orðin þreytt á þessari ríkisstjórn. Hún hefur rænt okkur. Við höfum einfaldlega fengið nóg af því,“ sagði mótmælandi sem breska ríkisútvarpið ræddi við.
„Við viljum rífa þetta valdakerfi upp með rótum,“ sagði einn viðmælandi Reuters á meðan annar sagði að þörf væri á róttækum kerfisbreytingum, ekki bráðabirgðalausnum.
Athmane Tartag, yfirmaður leyniþjónustu Alsírs, sagði af sér á fimmtudag vegna þrýstings mótmælenda, að því er alsírski miðillinn Ennahar greindi frá í gær. Ennahar greindi aukinheldur frá því að leyniþjónustan yrði færð aftur undir varnarmálaráðuneytið en árið 2016 ákvað Bouteflika að hún skyldi heyra undir forsetann sjálfan.
