WOW hefur undanfarið flogið reglulega til sextán áfangastaða og gjaldþrot félagsins skilur því eftir sig stórt skarð. Þegar flugframboð dregst svo mikið saman má búast við hækkandi flugfargjöldum. „Ég held að það sé óhætt að segja að WOW air hafi að minnsta kosti verið lykilaðili í því að flugfargjöld lækkuðu eins mikið og þau hafa gert," segir Elvar Ingi Möller, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka.
„Flugfargjöld voru um 40% ódýrari til útlanda um síðustu áramót samanborið við sama tíma árið 2014," segir hann og bætir við að WOW air hafi að meðaltali greitt um eitt þúsund krónur með hverjum flugfarþega frá stofnun.
Þrátt fyrir að hækkunin til skemmri tíma geti verið sérstaklega brött hafi hún þó verið óumflýjanleg.
„Svona til lengri tíma þá teljum við að það hafi verið óumflýjanlegt að flugfargjöld muni hækka og sérstaklega í ljósi þess að það hefur einfaldlega verið, og sérstaklega síðasta ári, greitt með hverjum flugfarþega," segir Elvar.
Yfir tuttugu flugfélög fljúga þó til Íslands og í dag tilkynnti hollenska flugfélagið Transavia að það myndi fljúga þrisvar í viku frá Amsterdam og fylla þannig upp í skarð WOW.

Framkvæmdastjóri Dohop segir kyrrsetningu Boeing 737-MAX vélanna einnig hafa áhrif.
„Það er skortur á flugvélum í heiminum þannig það er ekkert auðvelt endilega fyrir flugfélög að færa til í leiðarkerfinu og sérstaklega í því leiðarkerfi sem er búið að ákveða fyrir sumarið," segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.
„Það er auðvitað hægt að færa eitthvað til en ekkert í stórum stíl og kannski hæpið að við sjáum þetta gríðarlega framboð sem WOW hafði og sérstaklega ætlaði að vera með í sumar," segir Davíð.