Breska ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja til 200 milljónir punda, um 32 milljarða króna, til að skipta út sérstaklega eldfimum klæðningum á háhýsum eftir að leigusalar á einkamarkaði hafa margir neitað að leggja fé í slíkar endurbætur.
Bruninn í Grenfell-turni í London fyrir tæpum tveimur árum hratt af stað umræðu í Bretlandi og víðar um öryggi í slíkum fjölbýlishúsum. Alls fórst 71 maður í brunanum.
Rannsókn yfirvalda leiddi í ljós að álklæðning hússins og plasteinangrun hafi leitt til þess að eldurinn dreifðist svo hratt sem raun bar vitni.
Síðustu misserin hafa bresk yfirvöld þrýst á fasteignaeigendur að skipta út slíkum klæðningum en árangur þess hefur verið takmarkaður. Hefur ríkisstjórn landsins því ákveðið að ráðstafa opinberu fé til að bæta öryggi í 170 háhýsum.
