Dagur harmonikkunnar var haldin hátíðlegur um allt land í gær með ýmsum uppákomum. Í Hveragerði var Harmonikufélag Selfoss og Harmonikufélag Rangæinga með sameiginlega tónleika í Skyrgerðinni en alls eru 14 harmonikufélög í landinu.
En hvað kom til að þessi tvö harmonikufélög fóru að rugla saman reitum?
„Þau voru bæði að líða undir lok, það voru orðnir svo fáir í báðum félögunum að þetta var orðið mjög erfitt, bæði að hafa stjórnanda og halda þessu gangandi“, segir Þórður Þorsteinsson, formaður Harmonikufélags Selfoss og bætir við. „Það er engin endurnýjun í þessu, það kemur ekkert að ungu fólki, það eru sára fáir að læra á harmoniku, það er svolítið í Rangárvallasýslunni“.
„Já, við erum með tíu nemendur í Tónlistarskóla Rangæinga, sem er mjög flott, það er held ég met á landsvísu“, segir Haraldur Konráðsson, formaður Harmonikufélags Rangæinga.

„Við erum að slá í gegn, við erum að meika það segja þeir hlægjandi.
Hjördís Geirsdóttir mætti óvænt í Skyrgerðina og söng nokkur lög með harmoníkuleikurunum en hún fagnar 60 ára söngafmæli um þessar mundir.
