Ekki er gert ráð fyrir öðru en málið verði samþykkt. Um er að ræða stjórnarfrumvarp auk þess sem Viðreisn, Samfylking styðja og Píratar styðja málið. Halldóra Mogensen Pírati er formaður velferðarnefndar, sem hefur haft málið til umfjöllunar og hefur hún talað afgerandi með frumvarpinu. Hún telur fráleitt að trúaðir eigi að hafa nokkuð um málið að segja.
Þrír ráðherrar á stjákli
Fyrir liggur að Miðflokksmenn og fulltrúar Flokks fólksins munu verða á rauða takkanum. Það vakti hins vegar athygli að í atkvæðagreiðslu um málið í síðustu viku að Svandísi til mikillar hrellingar ákváðu þrír ráðherrar að sitja hjá, þegar greidd voru atkvæði um að vísa málinu áfram til 3. umræðu. Þetta voru þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja og Hvítasunnusöfnuðurinn
Spennandi verður að sjá hvernig þessi þrjú munu snúa sér í málinu í dag. Samkvæmt heimildum Vísis er Svandís einkum gröm vegna afstöðu, eða öllu heldur skorts á henni, hvað varðar Lilju Dögg en getgátur eru uppi um að afstaða hennar sé bundin vegna mikilla tengsla Framsóknarfélagsins í Reykjavík við Hvítasunnusöfnuðinn. Sem stendur á gömlum merg.
Trúaðir gegn femínistum
Femínistar hafa boðað komu sína á þingpallana síðdegis í dag, til að fagna því þegar frumvarpið verður að lögum. Og þar með áratugalöng barátta í höfn. En sem áður sagði; málið er ekki síst trúarlegs eðlis. Og má búast við því að trúaðir muni einnig mæta á pallana. Þessir hópar eru algerlega á öndverðum meiði.
Hvað gerir hin kaþólska Þorgerður Katrín?
Kaþólska kirkjan hefur mótmælt frumvarpinu en formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, er kaþólsk. Og víst er að í atkvæðagreiðslunni verður ekki síst horft til þess hvernig hún kýs. Eða hvort hún verður fjarverandi. Þorgerður hefur ekki tjáð sig um málið en flokkur hennar er því fylgjandi. Reyndar má búast við því að þeir sem heitastir eru í málinu muni fylgjast afar grannt með hvernig þingmenn verja atkvæði sínu og hvort þeir mæti yfir höfuð til að kjósa – það er þannig vaxið.Þannig liggur fyrir að málið mun reyna mjög á og má búast við því að þeir sem eru á móti málinu muni láta til sín taka í umræðu um atkvæðagreiðsluna. Og svo í atkvæðaskýringum um atkvæðagreiðsluna og þær breytingartillögur sem hafa komið fram. En, ekki er boðið uppá ræðuhöld um málið á þessu stigi, þannig að hver og einn þingmaður hefur takmarkaðan tíma til að gera ítarlega grein fyrir afstöðu sinni.
Vísir mun streyma beint frá þingi þá er málið verður þar til afgreiðslu en samkvæmt áætlun hefst afgreiðsla og umræður um klukkan 16:00.