Slökkvilið Borgarbyggðar var kallað út síðdegis í dag vegna elds við svínabú á Hýrumel í Borgarfirði. Mikill viðbúnaður hefur verið í sveitarfélaginu undanfarna daga vegna hættu á gróðureldum en óvissustigi almannavarna var lýst yfir í byrjun vikunnar í ljósi langvarandi þurrka á svæðinu.
Þórður Sigurðsson varaslökkviliðsstjóri segir í samtali við fréttastofu að útkallið hafi litið illa út í upphafi en betur hafi farið en á horfðist, einkum vegna þess að bakvakt hafði verið kölluð út í Borgarbyggð vegna gróðureldahættunnar og var útkallið því vel mannað.
Slökkviliðsmenn réðu fljótt niðurlögum eldsins á vettvangi en allt bendir til þess að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstöflu.
Slökkvilið Borgarbyggðar æfir í kvöld útkall vegna viðbragða við gróðureldum. Allt tiltækt slökkvilið tekur þátt í æfingunni en um fimmtíu manns verða ræstir út frá fjórum stöðvum slökkviliðsins; í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og á Bifröst.
