„Þessi mismunun á vörutegundum er mjög sérstök. Á meðan eitt fyrirtæki uppi á Höfða sem framleiðir gosdrykki er skattlagt í botn þá er annað fyrirtæki í 100 metra fjarlægð, stór aðili í sykurinnflutningi, sem sleppur alveg við þetta, það er Mjólkursamsalan,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í síðustu viku að skipa starfshóp sem falið verður að innleiða aðgerðaáætlun Embættis landlæknis til þess að draga úr sykurneyslu landsmanna. Aðgerðaáætlunin var gerð að beiðni Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Þar er lagt til að hækka verð á gosi og sælgæti um 20 prósent. Á móti á að lækka álögur á hollari matvæli. Ekki á að leggja sykurskatt á kökur, kex, ís eða sykraðar mjólkurvörur.
Þorgerður Katrín sér frekar fyrir sér betri merkingar og upplýsingar, sem þekkist víðar, en skattlagningu. „Við í Viðreisn viljum miklu frekar nálgast þetta út frá merkingum og upplýsingum sem stuðli að aukinni neytendavitund. Þannig að þegar neytendur fá sér súkkulaðiköku þá standi það skýrum stöfum hvað hún inniheldur margar hitaeiningar.“

Telur hún að eitthvað annað og meira liggi að baki hugmyndunum um að skattleggja gosdrykki og sælgæti en ekki sykurbættar mjólkurvörur en aðeins vilji til að draga úr sykurneyslu. „Uppleggið vekur furðu. Ef það er hægt að treysta einhverju hjá þessari ríkisstjórn þá er það að slá skjaldborg um sérhagsmuni Mjólkursamsölunnar.“
Sunna Gunnars Marteinsdóttir, verkefnastjóri í upplýsinga- og fræðslumálum hjá MS, hafnar því að MS sé stórtækt þegar kemur að sykri. „Mjólkursamsalan hefur markvisst unnið að því að minnka sykur í sínum vörum frá árinu 2003 og í dag eru um 85% af öllum okkar vörum án viðbætts sykurs,“ segir Sunna. „MS kaupir árlega um 1-2% af heildarsykurinnflutningi í sína framleiðslu en stærstu aðilarnir í kaupum á sykri eru um 10 sinnum stærri en MS.“
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis og einn höfunda aðgerðaáætlunarinnar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að fólk sem hefur minni tekjur og minni menntun lifi óheilbrigðara lífi og lifi skemur. Rannsóknir sýni að skattlagning breyti hegðun og það sé markmiðið.
„Við sjáum það í okkar tölum að fólk sem hefur minni tekjur og minni menntun lifir óheilbrigðara lífi og lifir skemur. Rannsóknir sýna að skattlagning breytir hegðun og það er það sem við viljum,“ sagði Dóra.
Þorgerður Katrín er ekki sannfærð. „Ég er ekki sannfærð um að þessi útfærsla á skattlagningu geti breytt hegðun. Upplýsum neytandann í staðinn fyrir að skattleggja hann.“