Ég gat ekki vitað hvenær hann opnaði bréfið sem ég sendi honum, hversu langan tíma það tók hann til að lesa það eða hvernig honum leið nákvæmlega á stundinni sem hann las það. Það var enginn gluggi sem sýndi „seen“, „writing“ eða tímasetningu.
Hann hefði alveg eins getað séð bréfið, horft á kvikmynd og lesið það áður en hann fór að sofa. Það hreinlega skipti engu máli. Ég þurfti ekki að lesa í öll viðbrögðin. Það var allt annar hraði á þessum tíma og önnur lögmál í gildi. Höfnunartilfinningin var ekki eins ódýr og í dag.
Við virðumst vita það að þegar við hittum fólk augliti til auglitis sem spyr okkur spurninga, verðum við að bregðast við á einhvern hátt. Við störum ekki bara á viðmælandann og snúum okkur svo að næsta viðmælanda í næstu samræður. Við vitum allavega að það er dónaleg hegðun.Í rafrænum samskiptum þá eru allt aðrar reglur, eða kannski regluleysi. Stundum slítum við samtali án þess að kveðja og stundum erum við of upptekin til að svara. Það þarf ekki alltaf að vera einhver ein ástæða.
Það að vera „seenaður“ getur stundum virkað sem blaut tuska í andlitið innan stefnumótaheimsins. En stundum virkar „seen“ þannig að þú verður jafnvel meira forvitinn eða spenntur.
Ég ræddi við vinkonurnar sem hvöttu mig til að hafa samband. Ég hélt nú aldeilis ekki að ég myndi hafa samband að fyrra bragði, hann þyrfti að gera það. En hann vissi ábyggilega ekki einu sinni að ég væri til.
Svo manaði ég mig upp í þetta eitt kvöldið. Ég var ein heima, fékk mér eitt rauðvínsglas og reyndi að semja hina fullkomnu opnunarlínu. Það ætti nú ekki að vera erfitt fyrir mig þar sem ég hafði óbilandi trú á mér bak við lyklaborðið.

Núna fékk ég þetta á heilann. Fékk hann á heilann. Hann kaus að svara mér ekki. Ég trúði ekki að ég hefði skrifað þetta, las skilaboðin aftur..og aftur. Hello stranger? …tjékka á dude! Hver skrifar svona? Ég huggaði mig við það að ég myndi vera ofursjálfsörugg þegar ég myndi hitta hann einhvern tíma og gera grín að þessu öllu. Honum myndi finnast ég rosalega fyndin og mjög líklega kolfalla fyrir mínum einstaka sjarma.
En talandi um baunir. Þegar ég stend hjá dósamatnum sé ég hann.
SEENARANN! Hann var ferskari en andskotinn, greinilega nýkominn úr sundi eða af æfingu.
Hann labbar í áttina til mín en er sem betur fer ekki búinn að sjá mig. Ég stend ennþá hjá dósamatnum og sé hann nálgast. Ég gat ekki látið hann sjá mig í þessu ástandi þannig að ég beygði mig niður og faldi mig á bak við myndarlegan Ora bauna dósastafla. Úff, rétt slapp.
Ég stend rólega upp. Hunangsgljáði og óþolandi ferski maðurinn er auðvitað það fyrsta sem ég sé, hann stendur fyrir aftan staflann, horfir undrandi á mig en labbar svo rólega í burtu. Hann þekkti mig.Það er skemmst frá því að segja að ég sendi ekki karlmanni skilaboð í langan tíma eftir þetta. Reyndar hef ég ekki heldur borðað Ora baunir síðan, en það er nú önnur saga.
Ást við fyrstu sýn er eitt, en ást við fyrsta „seen“ er eitthvað allt annað.