Á bænum hefur verið rekin ferðaþjónusta síðustu ár en það eru nokkur systkini og makar þeirra sem eiga staðinn. Alltaf er mikið að gera og því er það mikið áfall fyrir fjölskylduna að börnin smituðust á bænum í gegnum kálfana, sem voru til sýnis fyrir gesti en rannsóknir hafa sýnt að E. coli bakterían sem sýkti börnin fannst í hægðasýni frá kálfum.
„Hugur okkar er náttúrulega fyrst og fremst hjá þeim börnum, sem hafa fengið niðurgang eða smitast, hugurinn er þar. Við vitum það að dýr bera allskonar sjúkdóma og þau gera þarfir sínar þar sem þau standa og þegar þau þurfa, þannig að það er margt að varast í þessu og okkar verkferlar hafa snúist að því að þrífa allt mjög vel en ef að einn kálfurinn sýkist getur það smitað hina, það voru þrír kálfar í þessari stíu á þessu tímabili,“ segir Sölvi Arnarson, einn af eigendum ferðaþjónustufyrirtækisins.

„Það var lokað á aðgang að dýrum og við stoppuðum okkar eigin framleiðslu en lokuðum ekki veitingasalnum. Það er ekki hættulegt að koma í Efstadal,“ segir Sölvi.
En hvaða þýðingu hefur þessi niðurstaða fyrir staðinn?
„Mér líður náttúrulega bara þannig að mig langar bara að skríða undir sæng og fara að gráta en við erum að fá fullt af góðum kveðjun þar sem við erum hvött til dáða. Svona getur komið fyrir og það þarf að bregðast við. Við ætlum að bregðast við og við ætlum að halda áfram,“ segir Sölvi enn fremur.

Einkennalausir einstaklingar sem heimsótt hafa Efsta Dal tvö þurfa ekki að leita læknis né heldur einstaklingar sem fengið hafa niðurgang sem nú er genginn yfir.