Ungverska flugfélagið Wizz air kemur til með að fækka flugferðum sínum á milli Keflavíkur og Luton-flugvallar í London. Undanfarið hefur félagið flogið daglega milli Keflavíkur og Luton en gert er ráð fyrir fækkun niður í fimm ferðir á viku ef marka má vetraráætlun félagsins.
Talsmaður Wizz air staðfesti þetta við vefinn Túrista sem greindi fyrst frá málinu. Flugfélagið hóf flug á til Keflavíkur frá Luton í apríl á seinasta ári. Við fall WOW-air tilkynnti Wizz fjölgun ferða og hefur félagið síðan flogið daglega milli áfangastaðanna tveggja.
Í samtali við Túrista sagði talsmaður Wizz að flugáætlun félagsins sé til sífelldrar endurskoðunar og löguð að bókunarstöðu félagsins fram í tímann.
