Greint var frá því um helgina að Bjarni hafi tekið við varaformennsku í ráðinu. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, ákvað í kjölfarið að senda fyrirspurn til fjárlaganefndar Alþingis hvort þessi störf Bjarna kunni að vera brot á siðareglum ráðherra.
Bjarni svarar þessum vangaveltum í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Segir hann að fjármála- og efnahagsráðherra Íslands sitji ólaunað í bankaráði AIIB ásamt fulltrúum annarra 78 fullgildra aðildarríkja bankans.
„Í síðustu viku skipti bankaráðið með sér verkum. Það kom í hlut Íslands og þar með minn að gegna varaformennsku.
Það er með miklum ólíkindum að sjá vangaveltur um brot á siðareglum ráðherra af þessu tilefni. Það vantar bara að menn segist hafa um það rökstuddan grun,“ segir Bjarni á Facebook-síðu sinni.
Með orðum sínum um rökstuddan grun er ráðherrann að vísa í orð Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, sem hún lét falla í Silfrinu í febrúar í fyrra.
Sagði Þórhildur Sunna að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði dregið að sér fé í umræðu um akstursgreiðslur til hans og annarra þingmanna.
Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hefði brotið gegn siðareglum þingmanna með þessum ummælum sínum.