Framkvæmdir við Þingvallaveg hafa gengið vel og verkið er á undan áætlun að því er kemur fram á vef Þingvallaþjóðgarðs. Eftir sé að endurgera um það bil fimm hundruð metra utan núverandi vinnusvæðis og því verði tímabundnar lokanir frá og með í dag á tilteknum vegköflum frá níu á kvöldin til átta á morgnana. Þetta muni vara alla daga til 14. ágúst.
„Vestan frá verður lokun rétt sunnan við afleggjara að Silfru/Valhöll (P5). Austan megin verður Lyngdalsheiðarvegi (365) lokað við Þingvallaveg (36),“ segir á þjóðgarðsvefnum. Af þessum sökum sé ekki hægt að komast Þingvallahringinn að næturlagi.
Þá segir að búist sé við að nýr Þingvallavegur verði opnaður snemma í september.
