Verkfalli starfsmanna Heathrow flugvallar í Lundúnum sem átti að hefjast á morgun hefur verið frestað. Um 2500 starfsmenn vallarins höfðu samþykkt að leggja niður störf á morgun og þriðjudag til að knýja fram launahækkun.
Kjaraviðræður munu halda áfram á morgun í von um koma í veg fyrir verkfallsaðgerðir á þriðjudag.
Alls voru 177 flugferðir lagðar niður eftir að ekki náðist samkomulag um launahækkun milli Union, stéttarfélags starfsmanna vallarins og stjórnenda Heathrow.
Flugfélagið British Airways hefur gefið það út að þeim ferðum sem voru felldar niður verði samkvæmt áætlun á mánudag. Virgin Atlantic felldu ekkert niður engar ferðir heldur voru þær færðar á Gatwick flugvöll þar í borg og helst sú áætlun, samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.
Talsmaður Heathrow hefur ráðlagt farþegum að fylgjast vel með hvort einhverjar breytingar verði á ferðum þeirra.
Air Canada, Swiss, Lufthansa, Etihad og Qatar Airways eru meðal þeirra flugfélaga sem hafa staðfest niðurfellingu á flugferðum, en hafa ekki gefið út að einhverjar breytingar verði á áætlun nú þegar verkfallinu hefur verið frestað.
