Á vef Deadline er greint frá því að þessi gagnrýni og umfjöllun komi Polanski ekki á óvart því að hans mati hófust þessar „ofsóknir“ fjölmiðla nærri því áratug áður málið kom upp. Vísar Polanski þar til umfjöllunar fjölmiðla um morðið á eiginkonu hans Sharon Tate á heimili þeirra í Los Angeles.
„Fólk byrjaði að mynda sér skoðun á mér eftir dauða Sharon Tate. Þegar það gerðist, jafnvel þó ég væri að ganga í gegnum gífurlega erfiðleika, byrjuðu fjölmiðlar að fjalla um þennan harmleik án þess að vita hvernig ætti að vinna úr honum. Niðurstaðan varð svívirðileg umfjöllun þar sem var látið í það skína að ég bæri á einhvern hátt ábyrgð á morði hennar,“ er haft eftir Polanski.

Manson-fjölskyldan var oft kennd við djöfladýrkendur á sínum tíma en tilgangur morðanna var að sögn meðlimanna sá að koma á stríði á milli hvítra og þeldökkra í Bandaríkjunum. Átti verknaðurinn að líta þannig út að þeldökkir bæru ábyrgð á morðunum.
Polanski er þekktastur fyrir hrollvekjuna Rosemary´s Baby sem segir frá konunni Rosemary sem verður óvænt barnshafandi og kemst síðar meir að því að djöfullinn sjálfur er faðirinn.
Segir Polanski að eftir Rosemary´s Baby hafi fjölmiðlar verið sannfærðir um að hann sjálfur væri djöfladýrkandi. Ásökunum hafi verið haldið á lofti í marga mánuði þar til morðingjarnir fundust loksins.
„Þetta eltir mig enn í dag,“ er haft eftir Polanski sem segir nýjar ásakanir bætast við á hverju ári, þar á meðal frá konum sem saka hann um hluti sem hann á að hafa gert fyrir rúmum fimmtíu árum.
Nýjasta mynd Quentin Tarantino, Once Upon a Time in Hollywood, fjallar lauslega um Manson-fjölskylduna og Sharon Tate og hefur því vakið mikinn áhuga á málinu að nýju.
Formaður kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, Alberto Barbera, hefur varið þá ákvörðun að velja mynd Polanski til þátttöku. Segir Barbera að það sé mikilvægt að aðskilja listamanninn frá listinni.