„Þetta byrjaði á því að ég fór á námskeið í Tækniskólanum fyrir ári. Mig hafði lengi langað að prufa
að mála og svo leist mér mjög vel á. Ég fann mig mikið í þessu og fannst mjög gaman á námskeiðinu,“ segir Alma. Í kjölfarið fór hún að mála meira sjálf og fór að prufa sig áfram.
„Mér fannst það strax önnur upplifun að fá að vinna verkin sjálf og á eigin forsendum og fann mig vel í því. Mér fannst það frelsi dálítið öðruvísi og naut mín í því að finna minn persónulega stíl.“

„Þannig að stefnan er að læra meira og halda áfram að vinna með listina og að mála. Finna mína rödd, eða strokur öllu heldur.“ Alma segist alltaf hafa átt erfitt með að tjá sig með orðum en hafi loks fundið betri leið til að tjá sig í listinni.
„Mér fannst ég loksins finna almennilega leið og útrás til að tjá tilfinningar mína og líðan á hátt sem hentar mér betur.“ Hún segir líðan sína hverja stund vera sér innblástur.
„Ég er mest í frekar nútímalegum stíl og meira út í abstrakt. Á sýningunni er ég með um þrjátíu verk. Þau eru svo til sölu hafi fólk áhuga.“
Sýning Ölmu í Galleríi Núllinu, Bankastræti 0, stendur fram á sunnudag.