Bjarni sagðist upphaflega ætlað að klára málið fyrr í sumar en að lokum ákveðið að taka sér lengri tíma og vanda ákvarðanatökuna vel í samráði við aðra innan flokksins.
„Ég hef einfaldlega ákveðið að gefa mér þann tíma sem þessar aðstæður hafa kallað á og hlustað á flokksmenn, og ekki síður þingflokkinn,“ sagði Bjarni. Hann segir Þórdísi Kolbrúnu þekkja vel til þeirra verka sem eru á borði dómsmálaráðuneytisins en hún sinni ráðuneyti sem hún hafi mikinn áhuga á og muni að öllum líkindum halda áfram að sinna starfi sínu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Aðspurður hvort það kæmi til greina að Sigríður Andersen myndi snúa aftur í ríkisstjórn svaraði Bjarni játandi. Hún nyti bæði trausts innan þingflokksins og á meðal flokksmanna, væri reynslumikill ráðherra og einn af öflugustu stjórnmálamönnum landsins.

Lítur ekki á umræðuna sem persónulega árás á sig
Mikið hefur verið fjallað um klofning innan Sjálfstæðisflokksins vegna þriðja orkupakkans. Segja sumir að um sé að ræða átök milli íhaldssamari væng flokksins og þess frjálslyndari. Þá hafa margir áhrifamenn innan flokksins gagnrýnt hann opinberlega, og jafnvel sagt sig úr honum.Sjá einnig: Gamlir foringjar pönkast í forystunni
Í viðtalinu sagði Bjarni það koma sér á óvart hve hátt umræðan um orkupakkann hafi farið á undanförnum mánuðum. Málið hafi lengi verið á borði Alþingis og verið til umræðu í fyrri ríkisstjórn. Það hafi fengið ítarlega og vandaða afgreiðslu og hann sæi því ekki efnislega ástæðu til þess að vísa því aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, slíkt væri fordæmalaust.
„Ég skynja það að mörgum er mjög mikið niðri fyrir og þegar ég hlusta á það sem menn eru að hafa helst áhyggjur af þá segi ég við sjálfan mig: Ég er alveg sammála þessu fólki um mikilvægi orkustefnu fyrir landið, að við getum nýtt orkuna fyrir framfarir í landinu fyrir landsmenn alla, að það skiptir máli að við gefum ekki frá okkur yfirráð í þessum mála flokki og við erum ekki að gera það í þessu tiltekna máli,“ sagði Bjarni og kallaði jafnframt eftir dýpri og skarpari umræðu í þessum málaflokki.
Hann gaf lítið fyrir allt tal um klofning innan flokksins, málið væri vissulega umdeilt og slíkt væri skiljanlegt í stórum og breiðum flokki. Flokkurinn væri opinn fyrir umræðum og skoðanaskiptum og þau sjónarmið hefðu verið virt.
Hann sagði flokkinn rætt við fólk innan flokksins um þeirra áhyggjuefni og átt í góðu sambandi við flokksmenn, sem sýndi sig hvað best í fjölda opinna funda sem Bjarni sagði vera í kringum sjötíu. Flokkurinn hefði því augljóslega ekkert að fela hvað varðar orkupakkann.