
Endurskipulagning á rekstri rækjuvinnslu Hólmadrangs á Hólmavík hefur gengið vel og er útlit fyrir að búið sé að bjarga þessum stærsta vinnustað bæjarfélagsins sem telur um 440 manns. Sveitarstjóri Strandabyggðar segir að það hefði haft gífurleg áhrif hefði vinnslunni verið hætt. „Það er í fyrsta lagi starfsmenn og fjölskyldur þeirra. Fyrir sveitarfélagið að sjálfsögðu tekjur en þetta hefði haft svo mörg og óþægileg margföldunaráhrif að það er eiginlega hugsun sem vil ekki klára og þarf ekki núna,“ segir Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar.

Rækjuvinnsla Hólmadrangs er vel búin tækjum og fer hver rækja í gegnum strangt gæðaferli áður en henni er komið söluumbúðir. 99 prósent af rækjunni sem er fullunnin er innflutt og jafn stórt hlutfall er flutt úr landi. Sigurbjörn segir að reksturinn hafi verið endurskipulagður og að nýr eigandi, fyrirtækið Snæfell, hafi komið inn í hluthafahópinn. Rækjuiðnaðurinn hefur heilt yfir átt erfitt uppdráttar síðustu misseri og hafa gengisþróun og Brexit haft langvarandi áhrif en lang stærsti hluti vinnslu Hólmadrangs fer á Bretlandsmarkað. „Markaðirnir eru ágætir, ég hef heyrt að það sé bara mjög gott á þeim og einna helsti markaðurinn er Bretland. Það er að vísu alltaf þessi óvissa með Brexit og útgöngu þeirra og við munum þurfa mæta því þegar þar að kemur,“ segir Sigurbjörn.