Vettvangsrannsókn á flugslysi sem varð við Skálafellsöxl í dag lauk á ellefta tímanum í kvöld.
Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugsviðs og rekstrarstjóri rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir í samtali við Vísi rannsóknin hafi gengið vel. Þá hafi aðstæður á vettvangi verið góðar.
Það var á fjórða tímanum í dag sem viðbragðsaðilar fengu tilkynningu að lítil flugvél hefði brotlent á milli Móskarðshnjúka og Skálafells.
Flugmaðurinn, sem var einn í vélinni, var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi en þyrlan fann manninn um korter í fjögur þar sem hann var gangandi á toppi Skálafells.
Þorkell segir að alls hafi tíu manns verið að störfum við rannsóknina á vettvangi í dag og í kvöld, þar af sex til átta manns frá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Á meðal þess sem var gert var að fjarlægja flak vélarinnar af fjallinu og flytja hana í rannsóknarskýli nefndarinnar.
Þetta er áttunda flugslysið á árinu. Aðspurður hvort að það sé óvenjumikið segir Þorkell svo ekki vera, hins vegar hafi síðasta ár verið mjög sérstakt þar sem það varð ekkert flugslys.
Spurður út í það hvers vegna vélin brotlenti í dag segir Þorkell alltof snemmt að segja til um það.
Rannsókn lokið á vettvangi flugslyssins

Tengdar fréttir

Fundu flugmanninn gangandi við topp Skálafells
Viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu barst nú á fjórða tímanum tilkynning um flugatvik við Móskarðshnjúka.