Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Donald Trump má beita reglum sem koma munu í veg fyrir að flestir hælisleitendur og farandfólk frá Mið-Ameríku fái hæli eða landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Úrskurður lægra dómstigs hafði komið í veg fyrir að reglurnar tækju gildi á meðan önnur dómsmál vegna þeirra standa yfir.
Samkvæmt reglunum sem um ræðir getur fólk ekki sótt um hæli í Bandaríkjunum, hafi það lagt leið sína í gegnum önnur ríki á leiðinni til Bandaríkjanna án þess að sækja um hæli í einu þeirra ríkja fyrst.
Flestir þeir sem koma að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó koma frá Mið-Ameríku og þurfa meðal annars að ganga í gegnum Mexíkó. Þar með munu þau ekki geta sótt um hæli eða landvistarleyfi í Bandaríkjunum.
Úrskurður Hæstaréttar þýðir í raun að ríkisstjórnin geti byrjað að framfylgja reglunum en dómsmál um lögmæti reglanna standa enn yfir. Mannréttindasamtök og aðrir aðilar hafa höfðað mál gegn ríkisstjórninni á grundvelli þess að reglurnar séu ekki samræmi við innflytjendalöggjöf Bandaríkjanna. Líklegt þykir að Hæstiréttur muni fjalla aftur um málið þegar meðferð þess lýkur á neðri dómstigum.
Dómararnir Sonia Sotomayor og Ruth Bader Ginsburg gerðu grein fyrir mótstöðu þeirra við niðurstöðu meirihluta dómsins og sögðu ríkisstjórn Trump reyna í „enn eitt sinn“ að fara gegn hefðbundnum venjum og starfsreglum varðandi hælisleitendur og að reglan hafi upprunalega verið sett í gildi án þess að gera íbúum það ljóst og kalla eftir umsögnum, eins og lög segi til um að þurfi að gera.
Metfjöldi fjölskyldna frá Mið-Ameríku hafa sótt um hæli í Bandaríkjunum á undanförnu ári og hefur flestum þeirra verið sleppt innan Bandaríkjanna á meðan beðið er eftir að mál þeirra verði tekin fyrri af innflytjendayfirvöldum. Samkvæmt Washington Post eru um 436 þúsund hælisumsóknir til meðferðar hjá ríkinu.
