Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Hagfræðideildar Landsbankans á ferðaþjónustunni,sem kynnt verður á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans í Hörpu í dag á milli 8.30 og 10.45.
Í greiningunni kemur meðal annars fram að viðbrögð Icelandair við falli WOW air hafi dregið töluvert úr áhrifum af falli hins síðarnefnda flugfélags. Áhersla flugfélagsins á að fjölga hlutfalli erlendra ferðamanna í vélum sínum á kostnað tengifarþega er að mati hagfræðinga Landsbankans megin ástæðan fyrir því að ferðamönnum hafi fækkað mun minna eftir brotthvarf WOW air en ætla mátti þegar félagið varð gjaldþrota.

Þrátt fyrir þessa fækkun erlendra ferðamanna á árinu 2019 hingað til lands er nefnt í greiningunni að óhætt sé að segja að ferðaþjónustan hafi unnið varnarsigur á árinu. Þannig sé forystufólk innan ferðaþjónustunnar hóflega bjartsýnt á þróunina á næstu árum samkvæmt könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Landsbankann.
Þá er gert ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um þrjú prósent á næsta ári og um fimm prósent árið 2021. Á því ári muni um 2,2 milljónir erlendra ferðamanna koma hingað til lands, litlu færri en metárið 2017.
„Til lengri tíma erum við bjartsýn á áframhaldandi vöxt í ferðaþjónustu hér á landi og gerum ráð fyrir að hann verði ívið meiri en í greininni á heimsvísu. Vöxturinn verður þó mun minni en við höfum átt að venjast á síðustu árum og mun hvíla á sjálfbærari grunni,“ er haft eftir dr. Daníel Svavarssyni, forstöðumanni Hagfræðideildar Landsbankans, í fréttatilkynningu um greininguna sem nálgast má hér.