Vika er liðin síðan Donald Trump, Bandaríkjaforseti, fyrirskipaði Bandarískum hersveitum að yfirgefa norðanvert Sýrland. Þessi ákvörðun berskjaldaði Kúrda en Tyrkir líta á þá sem hryðjuverkahóp vegna tengsla þeirra við kúrdíska uppreisnarmenn í Tyrklandi.
Átökin milli Tyrklands og fyrrum-bandamanna Bandaríkjanna, Sýrlenska lýðræðishersins, SDF, verða „blóðugri með hverri klukkustund sem líður,“ sagði varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Mark Esper, á sunnudag.

Konurnar og börnin sem var haldið í Ayn Issa búðunum risu upp gegn vörðunum snemma á sunnudag eftir að tyrknesk sprengja sprakk nærri þeim. Þau flúðu öll en ekki er vitað hvert þau munu halda, en flest eru stuðningsmenn hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.

Kúrdar hafa lengi verið í fylkingarbrjósti ásamt bandarískum hersveitum í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki.
Eftir að átökin á milli Kúrda og Tyrkja brutust út hafa áhyggjur vaknað um að stuðningsmenn ISIS sem haldið hefur verið föngum í norðurhluta Sýrlands myndu ná að flýja og auðvelda hryðjuverkasamtökunum að koma saman á ný á svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum hafa meira en 130.000 Sýrlendingar þurft að yfirgefa heimili sín síðan aðgerðir Tyrkja hófust fyrir aðeins fimm dögum síðan, þar á meðal Sýrlendingar sem voru á flótta innan eigin lands vegna borgarastyrjaldarinnar sem hefur geisað í landinu síðastliðin átta ár.
Tyrknesk yfirvöld segja að 440 kúrdískir hermenn hafi látið lífið síðan aðgerðirnar hófust á miðvikudag en Sýrlenski lýðræðisherinn segir aðeins 56 hermanna sinna hafa látið lífið. Þá segja tyrknesk yfirvöld að fjórir tyrkneskir hermenn hafi látið lífið og sextán sýrlenskir bandamenn þeirra til viðbótar.