Tveir efnafræðiprófessorar í Arkansasríki í Bandaríkjunum voru handteknir á föstudag, grunaðir um að hafa stundað framleiðslu á metamfetamíni. Grunur leikur einnig á því að mennirnir hafi búið til efnin á vinnustaðnum.
Terry David Bateman og Bradley Allen Rowland eru báðir prófessorar í efnafræði á fimmtugsaldri við Henderson ríkisháskólann í borginni Arkadelphia. Þeir voru sendir í leyfi frá skólanum þann 11. október síðastliðinn, þremur dögum eftir að tilkynnt var um óvenjulega efnalykt í einni af vísindabyggingum skólans.
Samkvæmt upplýsingum frá talskonu háskólans leiddu athuganir í ljós að marktækt magn hafi verið af efninu benzyl chloride í einni rannsóknarstofanna, er fram kemur í frétt Washington Post. Efnið sem um ræðir er meðal annars sagt vera notað við framleiðslu metamfetamíns.
Fulltrúi skólans vildi ekki staðfesta í samtali við fréttastofu CNN hvort mennirnir séu grunaðir um hafa búið til efnin innan veggja skólans. Lögregluyfirvöld segja þó að rannsókn þeirra á mönnunum hafi byrjað í kjölfar upplýsinga frá yfirlögregluþjóni háskólans.

