Morales sagði af sér á sunnudag vegna mótmæla sem hafa varað vikum saman en ósætti er í landinu vegna niðurstöðu forsetakosninga.
Hann lenti á flugvellinum í Mexíkóborg og hélt hann þar stuttan blaðamannafund. Þá sagði hann að hann hafi verið neyddur til að segja af sér en hann hafi þó verið viljugur til þess „til þess að blóðsúthellingar myndu hætta og til að stöðva ofbeldi.“
Leiðtoginn sagði að hann og bólivísk stjórnvöld væru „mjög þakklát“ mexíkóska forsetanum Andres Manuel Lopez Obrador, en Morales hefur sagt hann hafa bjargað lífi sínu.
„Á meðan ég er á lífi mun ég halda áfram í stjórnmálum, baráttan heldur áfram. Allir í heiminum hafa rétt til að brjótast undan ójafnrétti og niðurlægingu,“ bætti hann við.
Marcelo Ebrard, utanríkisráðherra Mexíkó, sagði að Morales hafi komist „örugglega“ til landsins og tísti hann mynd af þotunni sem Morales flaug í.
Evo llegó sano y salvo a México pic.twitter.com/RVjCnhgUTo
— Marcelo Ebrard C. (@m_ebrard) November 12, 2019
Morales, sem er fyrrverandi kakóbóndi, var fyrst kosinn forseti árið 2006, og var þar með fyrsti leiðtogi landsins af frumbyggjaættum.
Hann varð vinsæll vegna baráttu gegn fátækt og fyrir að bæta efnahagsástand Bólivíu en hann var gagnrýndur fyrir að beygja stjórnarskrárlög sem sögðu til um að forseti gæti ekki setið í meira en þrjú kjörtímabil þegar hann var endurkjörinn í október.
Fréttin var uppfærð klukkan 21:25.