Ríkharð Óskar Guðnason tók saman umfjöllun um leikina tvo sem má sjá hér fyrir neðan.
Eins og svo oft áður í vetur byrjaði Fjölnir illa gegn Aftureldingu. Eftir ellefu mínútur var staðan 1-9, Mosfellingum í vil.
Þá fóru heimamenn í gang og minnkuðu muninn í eitt mark. Staðan í hálfleik var 13-17, gestunum úr Mosfellsbænum í vil.
Seinni hálfleikurinn var jafn en Afturelding seig fram úr undir lokin og vann að lokum sex marka sigur, 25-31.
Tumi Steinn Rúnarsson, leikstjórnandi Aftureldingar, fékk rautt spjald fyrir að kasta boltanum í andlit Axels Hreins Hilmissonar, markvarðar Fjölnis.
Með sigrinum jafnaði Afturelding Hauka að stigum á toppi deildarinnar. Fjölnir er með fimm stig í ellefta og næstneðsta sætinu.
Valur var alltaf með yfirhöndina gegn nýliðum HK í Kórnum. Staðan í hálfleik var 13-17, Valsmönnum í vil. Á endanum munaði átta mörkum á liðunum, 23-31.
Hornamennirnir Vignir Stefánsson og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu samtals 15 mörk fyrir Val. Jóhann Birgir Ingvarsson skoraði átta mörk í sínum fyrsta leik fyrir HK.
Valur er í 8. sæti deildarinnar með níu stig en HK er án stiga á botninum.