Enn reynir björgunarfólk að bjarga Albaníumönnum úr rústum þeirra húsa sem hrundu í skjálftanum. Til landsins er komið fólk frá fjölmörgum löndum, meðal annars Íslendingurinn og byggingaverkfræðingurinn Sólveig Þorvaldsdóttir. Hún segist stödd í borginni Durres, þar sem mestu skemmdirnar urðu.

Sólveig segir skipulagið nú orðið gott. Í dag hafi verið unnið í rústum á þremur stöðum en lífslíkur þeirra sem saknað er fari minnkandi. Heilt yfir segir hún starfið ganga vel.
„Ég myndi bara segja að það gangi vel. Það sem er núna fram undan er að það er fullt af húsum sem þarf að skoða,“ bætir hún við og segir að það þurfi að meta hvort öruggt sé að fara inn í hús eða hvort það þurfi að rífa bygginguna.