Birst hafa tölvumyndir á netinu þar sem Tesla Cybertruck hefur verið breytt í enn meira torfærutröll og kannski er það ekki svo óraunhæft þegar grannt er skoðað. Cybertruck kemur á loftpúðafjöðrun sem getur lækkað bílinn að aftan þannig að hægt er að keyra fjórhjól beint upp í hann á rafdrifnum rampi, eins og sýnt var á kynningunni. Tesla fjórhjólið er þó aðeins endurhannað Yamaha Raptor sem fengið hefur hlífar í stíl við pallbílinn og að sjálfsögðu rafmótor. Það er mjög hátt undir bílinn eða 406 mm undir lægsta punkt. Einnig er aðfallshorn hans með besta móti eða 35° og fráfallshornið 28° sem er betra en hjá helstu keppinautum. Þegar aflið bætist við fer dæmið að líta vel út. Enn eigum við þó eftir að sjá hvað bíllinn er þungur og hvort hann getur yfirhöfuð ekið í vatni að einhverju ráði.

Fyrstu bílarnir munu koma á götuna árið 2021 og þá bara með einum mótor en Plaid útgáfan árið 2022. Að sögn Elon Musk hafa þegar um 200.000 manns lagt inn pöntun í trukkinn í Bandaríkjunum svo að viðtökurnar þar lofa góðu. Samkvæmt talnaspekingum innan bílgreinarinnar verða að minnsta kosti níu rafdrifnir pallbílar komnir á göturnar í lok ársins 2021 í Bandaríkjunum. Árið 2024 verður framleiðslugetan komin upp í 250.000 ökutæki á ári en samkvæmt fyrrgreindum talnaspekingum er markaður fyrir aðeins um 70.000 á ári. Bílarnir sem eru á leiðinni eru margir hverjir ekki af verri sortinni heldur. Nægir þar að nefna bíla frá Bollinger, Hercules, Atlis, Workhorse, Ford, GM, Neuron og Rivian sem allir koma af framleiðslulínum í Bandaríkjunum. Ljóst er því að samkeppnin verður hörð í þessum flokki.
