Sveitarstjórn Hörgarársveitar krefst þess að allar línur rafmagns sem liggja í gegnum sveitarfélagið verði komið neðanjarðar. Í Hörgárdal og Öxnadal var rafmagnslaust í fjóra sólahringa þar sem lengst var rafmagnsleysi í óveðrinu sem gekk yfir landið í síðustu viku.
Í bókun sveitarstjórnar Hörgársveitar sem samþykkt var í sveitarstjórn í dag segir að það séu mikil vonbrigði að það óveður sem gekk yfir landið hafi valdið þeim mikla vanda og tjóni sem varð. Þannig sé ljóst að þær loftlínur raforku sem enn séu í sveitarfélaginu séu á engan hátt tilbúnar að mæta miklum vetrarveðrum eða hvassviðri. Þá sé staðsetning hluta þeirra í gegnum þéttan trjágróður óásættanleg.
Er því alfarið hafnað að ráðist verði í framtíðarviðgerðir á þeim tveimur köflum loftlínu sem brugðust í sveitarfélaginu og þess í stað vill sveitarstjórn fá loftlínunar í jörð eins fljótt og mögulegt er.
„Á þetta við um allar sveitalínur, Dalvíkurlínu og núverandi byggðalínu. Allar þessar línur eru komnar til ára sinna og ljóst að þær standast ekki þær kröfur sem nútímasamfélag gerir varðandi raforkuöryggi,“ segir í bókuninni þar sem þess er einnig krafist að stjórnvöld sjái til þess að dreififyrirtæki rafmagns verði studd til að fara í slíkt átak um allt land.
Bókun sveitarstjórnarinnar má lesa hér.
