Valskonur hafa fengið mikinn liðsstyrk fyrir næstu körfuboltaleiktíð því Hildur Björg Kjartansdóttir hefur skrifað undir samning við Hlíðarendafélagið.
Hildur Björg, sem valin var körfuknattleikskona Íslands árið 2018 sem og árið 2017, kemur til Vals frá KR. Hún er uppalin hjá Snæfelli og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2014 áður en hún hélt í bandaríska háskólakörfuboltann.
Á árunum 2017-2018 lék Hildur Björg í næstefstu deild Spánar með Leganés og Celta de Vigo og var nálægt því að komast upp í efstu deild. Hún var svo algjör lykilleikmaður í liði KR í vetur.
Hildur Björg á að baki 32 A-landsleiki og ljóst að hún styrkir enn hið sterka meistaralið Vals sem nýverið réði Ólaf Jónas Sigurðsson sem þjálfara.