Sveitarstjórnir Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps hafa skipað verkefnishóp til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna myndi hafa á rekstur og þjónustu sveitarfélaganna. Verkefnið hefur hlotið nafnið „Sveitarfélagið Suðurland“.
Hópurinn hefur þegar hleypt upplýsingasíðu um verkefnið af stokkunum og má nálgast síðuna hér. Þar má nálgast frekari skýringar á ferlinu auk þess sem þangað má senda inn fyrirspurnir um áhrif hugsanlegrar sameiningar.
Aðstandendur verkefnisins segja jafnframt að fyrirhugað sé að halda íbúafund í hverju og einu sveitarfélagi í haust - „þar sem leitað verður sjónarmiða íbúa og í framhaldinu framkvæmd skoðanakönnun.“
Gert er ráð fyrir að tillaga verkefnishópsins liggi fyrir í lok október 2020, þannig að sveitarstjórnir geti tekið ákvörðun í nóvember. Verði ákveðið að hefja formlegar sameiningarviðræður munu íbúar ganga til kosninga um sameiningartillögu á árinu 2021.
Upplýsingasíðu verkefnisins má nálgast með því að smella hér.