Du Wei, sendiherra Kína í Ísrael, er látinn. Hann fannst í íbúð sinni í úthverfi ísraelsku borgarinnar Tel Aviv samkvæmt fjölmiðlum þar í landi.
Greint er frá málinu á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar segir að dánarorsök Du liggi ekki fyrir að svo stöddu.
Du, sem var 58 ára, var settur í embætti sendiherra Kína við Ísrael í febrúar á þessu ári. Hann hafði áður þjónað í kínversku utanríkisþjónustunni sem erindreki í Úkraínu.
Du var giftur og átti einn son, en fjölskylda hans er ekki talin hafa verið með honum í Ísrael þegar hann lést.