Björgunarsveitir á Norðurlandi voru kallaðar út um klukkan 15:30 eftir að skemmtibát með þrjá innanborðs hvolfdi á Langavatni á Skagaströnd.
Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að um klukkan fjögur hafi sjúkraflutningamenn og björgunarsveitamenn verið komnir að vatninu og búnir að finna fólkið sem sat ofan á bátnum.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að fólkið hafi verið í um klukkutíma á bátnum og verið kalt og hrakið. Það hafi þó farið til síns heima þegar búið var að koma því á þurrt.
