Í kvöld vann Fylkir 2-0 heimasigur á Gróttu í Pepsi Max deild karla í fótbolta. Var þetta fyrsti sigur Fylkis í deildinni eftir tvö svekkjandi töp gegn Stjörnunni og Breiðabliki.
Valdimar Þór Ingimundarson sá til þess að heimamenn náðu öllum þremur stigunum en hann skoraði bæði mörk Árbæinga. Þá klúðraði Grótta víti í leiknum en nýliðarnir frá Seltjarnarnesi hafa ekki enn skorað mark í efstu deild.
Athygli vakti að leikmenn Fylkis gáfu ekki kost á sér í viðtöl eftir leik en Ólafur Stígsson, annar þjálfari Fylkis, mætti í viðtöl hjá Vísi eftir leik. Ekki fékkst útskýring á því af hverju leikmenn liðsins mættu ekki í viðtöl.
Helgi Valur Daníelsson, fyrirliði Fylkis, meiddist illa í leiknum og verður líklega frá út tímabilið. Verandi 39 ára gamall er óvíst hvort Helgi Valur snúi aftur á völlinn.