Fjöldi nýrra smita í flestum héruðum Svíþjóðar er aðeins þriðjungur þess sem hann var fyrir um tveimur vikum síðan. Í 17 af 20 af héruðum landsins sýnir tölfræðin að smitum fer ört fækkandi en aðeins þrjú héruð uppfylltu viðmið norskra heilbrigðisyfirvalda í síðustu viku.
Þetta kemur fram á vef norska miðilsins Verdens gang þar sem farið er yfir stöðuna í Svíþjóð. Þar kemur fram að vikuna 22. til 28. júní voru 1.126 ný smit skráð í landinu á hverjum degi en tveimur vikum seinna voru þau að meðaltali fjögur hundruð.
Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda í Svíþjóð, sem voru talsvert frábrugðin viðbrögðum í nágrannalöndunum, hafa vakið nokkra athygli. Félagsforðun var ekki höfð í öndvegi, leik- og grunnskólum var ekki lokað og útgöngubann ekki innleitt.
Norsk heilbrigðisyfirvöld hafa gefið út það viðmið fyrir Norðurlöndin og lönd innan Schengen að aðeins tuttugu smit greinist á hverja 100 þúsund íbúa á tveggja vikna tímabili svo staðan sé ásættanleg. Það þýðir að í Svíþjóð þurfa ný smit að vera færri en 147 á hverjum degi og því er enn töluvert í land.
Í yfirferð VG segir að síðasta vika júnímánaðar hafi verið ein sú versta í Svíþjóð hvað varðar fjölda smita. Þá hafi 76,2 á hverja 100 þúsund íbúa greinst með veiruna. Í síðustu viku varð töluverð breyting þar á þegar 27,1 á hverja 100 þúsund greindust með veiruna og náðu tólf héruð þeim áfanga að halda fjöldanum undir 20 á hverja 100 þúsund í þeirri viku.
Flest héruð hafa náð að auka getu sýna hvað varðar sýnatökur sem gæti leitt til þess að fleiri smit greinist hverju sinni. Líkt og segir í frétt VG er líklegt að fleiri smit greinist þegar afkastagetan í sýnatökum eykst.