Guðjón Þórðarson stýrir Víkingi Ó. í fyrsta sinn þegar liðið sækir Leikni R. heim í 7. umferð Lengjudeildar karla í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.
Guðjón var ráðinn þjálfari Víkings í síðustu viku. Hann tók við liðinu af Jóni Páli Pálmasyni sem var látinn taka pokann sinn.
Brynjar Kristmundsson stýrði Víkingi í 1-3 tapinu fyrir Aftureldingu í Ólafsvík á föstudaginn en Guðjón er nú alfarið tekinn við Ólsurum og fyrsti leikur liðsins undir hans stjórn er Efra-Breiðholtinu í kvöld.
Víkingur er sjöunda félagið sem Guðjón stýrir á Íslandi. Áður þjálfaði hann ÍA, KA, KR, Keflavík, BÍ/Bolungarvík og Grindavík. Leikurinn í kvöld verður hans fyrsti með íslenskt félagslið síðan 2012.
Guðjón hefur einnig stýrt Stoke City, Barnsley, Notts County og Crewe Alexandra á Englandi, Start í Noregi og NSÍ Runavík í Færeyjum sem hann var með í fyrra. Þá var Guðjón þjálfari íslenska karlalandsliðsins á árunum 1997-99.
Víkingur er í 9. sæti Lengjudeildarinnar með sex stig eftir jafn marga leiki. Leiknir er í 4. sætinu með þrettán stig, einu stigi á eftir ÍBV og Fram sem eru efst og jöfn.