Kylian Mbappé verður frá keppni næstu þrjár vikurnar eftir að hafa meiðst í ökkla við slæma tæklingu í bikarúrslitaleiknum í franska fótboltanum á föstudag.
Mbappé tók við gullverðlaununum á hækjum eftir sigur PSG á St Etienne í bikarúrslitaleiknum. Fyrirliði St Etienne, Loic Perrin, tæklaði Mbappé illa og fékk að líta rauða spjaldið í kjölfarið.
Nú er komið í ljós að Mbappé verður ekki með PSG gegn Atalanta 12. ágúst í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hann missir auk þess af úrslitaleik deildabikarsins gegn Lyon á föstudaginn.
Síðustu stig Meistaradeildarinnar fara fram í Portúgal í ágúst og verða leiknir stakir leikir í 8-liða úrslitum og undanúrslitum, í stað tveggja leikja einvíga. Vinni PSG sigur á Atalanta gæti Mbappé mögulega spilað í undanúrslitunum gegn RB Leipzig eða Atlético Madrid.