Farþegum hefur verið gert að halda sig um borð í norska skemmtiferðaskipinu SeaDream 1 eftir ferðamaður sem hafði verið um borð í skipinu greindist smitaður af kórónuveirunni við komuna heim til Danmerkur.
Sá smitaði hafði farið frá borði í norður-norska bænum Tromsø og hélt þaðan til heimalandsins. Við komuna var honum gert að fara í sýnatöku þar sem hann greindist smitaður. Í ljósi þeirra upplýsinga var tekin ákvörðun um að SeaDream 1 skuli liggja við bryggju í Bodø og engum skuli hleypt frá borði.
Allir áhafnarmeðlimir skipsins, 85 talsins, verða sendir í sýnatöku og segir Ida Pinnerød, borgarstjóri Bodø í samtali við NRK að til skoðunar sé hvort að farþegarnir 123 verði einnig sendir í skimun.
Ný ferð skipsins milli Tromsø og Bodø hófst 2. Ágúst síðastliðinn og hafði hinn smitaði því ekki verið á meðal farþega í þessari ferð sem um ræðir. Farþegar í fyrri ferð skipsins hafa verið skipaðir í tíu daga sóttkví.
„Við vonum svo sannarlega að enginn um borð sé smitaður af COVID-19. Við höfum ekki vitneskju um fleiri smit á meðal farþega eða áhafnarmeðlima og enginn sýnir einkenni,“ segir rekstraraðili skemmtiferðaskipsins í yfirlýsingu.
Þá hafa 44 greinst smitaðir af veirunni um borð í skemmtiferðaskipinu MS Roald Amundsen sem liggur við bryggju í Tromsø. Níu farþegar, allir búsettir í Noregi, og 35 áhafnarmeðlimir hafa fengið staðfestingu á smiti.
Ekki liggur fyrir hvernig smit barst í skipin tvö en eftir smitin í Roald Amundsen tók rekstraraðili þess ákvörðun um að hætta öllum siglingum í tvær vikur. Þá ákváðu norsk stjórnvöld að loka skuli höfnum landsins fyrir skemmtiferðaskipum yfir sama tímabil. Ekki liggur fyrir hvers vegna Sea Dream 1 fékk leyfi til þess að leggja að í Bodø.