Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanon, hefur slitið ríkisstjórn sinni og stigið úr embætti. Það gerði hann vegna sprengingarinnar í Beirút en mikil reiði ríkir í Líbanon vegna langvarandi spillingar, vanrækslu stjórnvalda og efnahagsörðugleika. Diab sagði í ræðu sinn í dag, eftir að þrír ráðherrar í ríkisstjórn hans sögðu einnig af sér, að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að spilling í Líbanon væri „stærri en ríkið“.
Diab sagðist ætla að berjast með fólkingu fyrir breytingum á stjórnarfari landsins.
AP fréttaveitan segir að ákvörðun Diab gæti leitt til langværandi viðræðna um nýja ríkisstjórn. Frá því í október hafa umfangsmikil mótmæli átt sér stað í landinu og sú ólga aukist í kjölfar sprengingarinnar í síðustu viku. Hún er talin til marks um opinbera vanrækslu og sinnuleysi.
Ráðandi fylkingar í Líbanon hafa hins vegar verið við völd svo lengi, eða allt frá því borgarastyrjöld lauk árið 1990, að mjög erfitt er að finna trúverðugan leiðtoga sem tengist ekki þeim fylkingum.
Diab vísaði einmitt til forvera sinna í afsagnarræðu sinni kenndi þeim um ástandið í Líbanon.
„Þeir ættu að skammast sín vegna þess að spilling þeirra leiddi til þessara hörmunga sem hafa verið faldar í sjö ár,“ sagði Diab. Hann sagði ráðandi fylkingar landsins hafa lamað ríkið. Ekki væri hægt að standa í hárinu á þeim eða losna við þá.
Fjölmiðlar ytra hafa sagt að eldur hafi kviknað út frá logsuðu. Eldurinn kviknaði í vöruskemmu þar sem flugeldar voru geymdir auk 2.750 tonna af ammóníum nítrati, sem notað er í áburð og sprengiefni. Því var komið fyrir í vöruskemmunni árið 2014 þegar það var tekið úr skipi sem að endingu var gert upptækt. Opinber gögn sýna að hafnarstarfsmenn reyndu ítrekað í gegnum árin að losna við efnið en því var ekki sinnt.
Sama ferlið af stað aftur
Diab sjálfur var prófessor áður en hann tók starfið af sér. Það gerði hann í október eftir að forveri hans, Saad Hariri, steig úr embætti vegna áðurnefndra mótmæla. Ráðandi fylkingar í Líbanon deildu um margra mánaða skeið áður en Diab var skipaður í embætti. Ríkisstjórn hans var studd af Hezbollah samtökunum.
Starf forsætisráðherrann virtist ómögulegt strax í upphafi. Hann stýrði ríkisstjórn sem átti að bregðast við ákalli eftir umbótum en í ríkisstjórn sem mynduð var af þeim fylkingum sem almenningur vill losna við.
Nú hefst þetta sama ferli líklegast aftur. Þessar sömu fylkingar, sem hafa stjórnað Líbanon svo illa í áratugi, munu eiga í löngum viðræðum um nýja ríkisstjórn.
Diab sagði þó fyrir tveimur dögum að hann myndi sitja áfram í embætti í nokkra mánuði og hjálpa til við endurbætur. Vegna þrýstings innan ríkisstjórnar hans reyndist þó ómögulegt fyrir hann að halda völdum áfram.