Tíu íbúar og fjórir starfsmenn á einni deild hjúkrunarheimilisins Hömrum eru í sóttkví. Starfsmaður í umönnun greindist með kórónuveiruna.
Stafsmaðurinn mætti til vinnu á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ eftir orlof í fyrradag og hafði verið við störf í umönnun í rúma tvo tíma þegar hann frétti að náinn aðstandandi hefði greinst með kórónuveirusmit.
„Viðkomandi fór í sýnatöku eins fljótt og auðið var og það kom í ljós daginn eftir að hann var smitaður líka. Við settum tíu íbúaeiningu í sóttkví strax og það var allt sótthreinsað. Við höfðum þær varúðarráðstafanir og sýkingavarnir eins og samráðshópur almannavarna hefur lagt upp með. Það eru bæði ungir og aldraðir sem búa á einingunni en það búa allir á rúmum einbýlisherbergjum og gott sameiginlegt rými og því gott að hafa alla aðskilda þar ,“ segir Kristín Högnadóttir framkvæmdastjóri hjúkrunarsviðs á Hömrum, Skjóli og Eir.

Fjórir starfsmenn sem höfðu unnið með viðkomandi starfsmanni fóru í sóttkví. Þá voru gerðar meiri ráðstafanir vegna þeirra íbúa sem starfsmaðurinn annaðist. Kristín segir að engin hafi sýnt merki um að hafa smitast af veirunni.
Öðrum deildum Hamra var lokað fyrir heimsóknum í tvær vikur í framhaldinu.
Við þurftum að bæta við starfsfólki því við þurfum að hafa sérmönnun á þessari einingu og þurftum að stokka upp og fengum starfsmenn lánaða frá systraheimilum okkar,“ segir Kristín.
Hún segir að öll viðbrögð hafi verið fumlaus eins og í vor þegar smit kom upp á öðru heimili og hrósar starfsfólki í hástert.
Það kom upp svipað atvik á Eir í vor en það gekk mjög vel það kom engin sýking þar upp,“ segir Kristín.