Í dag, 31. janúar, eru tíu ár síðan íslenska karlalandsliðið í handbolta vann til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki. Íslendingar unnu þá Pólverja í leiknum um 3. sætið, 29-26, í Vín.
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur Íslendinga með átta mörk. Tilþrif leiksins átti samt Alexander Petersson.
Þegar skammt var eftir misstu Íslendingar boltann og Tomas Tlucsynski brunaði fram og gat minnkað muninn í eitt mark. Alexander var á öðru máli, hljóp Tlucsynski uppi og sló boltann út af. Mögnuð varnartilþrif sem aldrei gleymast.

Íslendingar fögnuðu bronsinu vel og innilega með Silver-gel í hárinu. Allir nema Ólafur Stefánsson sem fékk forláta húfu frá DJ Ötzi sem samdi lag Evrópumótsins 2010.
Þetta var annað stórmótið í röð þar sem Ísland vann til verðlauna. Sem frægt er fengu Íslendingar silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008.
Ísland tapaði aðeins einum leik á EM 2010; fyrir Frakklandi í undanúrslitunum, 28-36. Íslendingar unnu Dani, Rússa, Norðmenn og Pólverja og gerðu jafntefli við Serba, Austurríkismenn og Króata.
Ólafur var valinn í úrvalslið mótsins. Arnór Atlason og Guðjón Valur voru jafnir í 4. sæti yfir markahæstu leikmenn EM. Þeir skoruðu báðir 39 mörk. Alls átti Ísland fjóra af tíu markahæstu leikmönnum mótsins; Arnór, Guðjón Val, Snorra Stein Guðjónsson (36) og Róbert Gunnarsson (34).