Gísli Þorgeir Kristjánsson mun ekki leika meira á leiktíðinni í þýska handboltanum eftir að hafa meiðst illa um helgina.
Þetta staðfesti Kristján Arason, faðir Gísla, í samtali við Morgunblaðið í kvöld.
Gísli meiddist í fyrsta leik sínum með Magdeburg er þeir spiluðu við Flensburg. Hann hafði skorað tvö mörk er hann meiddist eftir baráttu við Michael Jurecki sem fékk rautt spjald.
Nú er staðfest að Gísli mun ekki leika meira á tímabilinu en hann hafði nýverið skrifað undir samning við Magdeburg eftir að hafa losnað undan samningi hjá Kiel.
„Það var tekin ákvörðun um það að Gísli myndi ekki fara í aðgerð þegar hann meiðist í nóvember á síðasta ári. Hann lendir svo í þessum meiðslum núna eftir mjög ljótt brot og það hefur verið tekin ákvörðun um það að hann muni fara í aðgerð. Hann mun því ekki spila meira með Magdeburg á þessari leiktíð,“ sagði Kristján við Morgunblaðið.
Gísli var nýskriðinn upp úr öðrum erfiðum meiðslum en nú er ljóst að hann mun ekki leika neitt fyrr en á næstu leiktíð.
Hann skrifaði undir samning við Magdeburg til 2021.
