Óveðrið sem spáð hefur verið á höfuðborgarsvæðinu er farið að segja til sín. Verulega fór að bæta í vind um klukkan þrjú í nótt en veðurspáin gerir ráð fyrir vindhraða á bilinu 20-30 m/sek í borginni og mun veðrið verða verst í efri byggðum.
Veðrið mun verða verst frá klukkan sjö á höfuðborgarsvæðinu, en þá tekur rauð viðvörun gildi.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur sinnt tveimur útköllum í nótt vegna veðursins. Annars vegar í Grafarholti þar sem gluggi slóst til og á fjórða tímanum barst tilkynning um að rúða hefði sprungið í risíbúð í Vesturbænum, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins.
Upp úr klukkan fjögur fengu svo björgunarsveitir tilkynningu um að þakplötur væru farnar að losna af íbúðarhúsi í Grafarvogi.
Aðgerðarstjórn verður virkjuð á höfuðborgarsvæðinu á milli klukkan fimm og sex og mun starfa á meðan óveðrið gengur yfir.
Óvissustig á Reykjanesbraut
Lokað er fyrir umferð um Hellisheiði og Þrengsli vegna veðurs og þá hefur Mosfellsheiði einnig verið lokað. Þá hefur Vegagerðin lýst yfir óvissustigi á Reykjanesbraut þar sem verulega hefur bætt í vind. Tekin hefur verið ákvörðun um að loka brautinni, sem og Grindavíkurvegi klukkan fimm.